
Ásgeir Ásgeirsson forseti og Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú í opinberri heimsókn í Rangárvallasýslu 25. og 26. ágúst árið 1956. Forsetabíllinn, sem er svartur Buick, kemur akandi við Elliðaár. Nokkur augnablik við Ölfusá. Móttaka fyrir forseta við Þjórsárbrú í Rangárvallasýslu þar sem Björn Björnsson sýslumaður og Ingólfur Jónsson alþingismaður taka á móti þeim. Í Gunnarshólma í Landeyjum er fjölmenn móttaka fyrir forsetahjónin. Skógafoss og Skógaskóli þar sem forsetahjónin gistu um nóttina. Heimsókn á Hellu og guðsþjónusta í Oddakirkju þar sem séra Sigurður Einarsson prédikaði.
Forsetaheimsókn 1. og 2. september 1956 í V-Skaftafellssýslu. Forsetahjónin Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir ásamt syninum Þórhalli Ásgeirssyni aka yfir Jökulsá á Sólheimasandi í forsetabílnum. Jón Kjartansson sýslumaður tekur á móti þeim ásamt sýslunefnd. Ferðast um héraðið að Kirkjubæjarklaustri þar sem grafir Lárusar Helgasonar og Elínar Sigurðardóttur með lágmyndum eftir Ríkarð Jónsson eru heimsóttar. Móttaka og messa í Vík í Mýrdal. Hjörleifshöfði og Dyrhólaey heimsótt. Ferðinni lýkur að Keldum.
Við stofnun lýðveldis á Íslandi var Vigfús Sigurgeirsson gerður að sérstökum ljósmyndara hins nýja forsetaembættis. Þeirri skyldu gegndi hann í forsetatíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar og skrásetti marga merkilega viðburði og ferðalög þeirra bæði á ljós- og kvikmyndum.
Kvikmyndataka
Athugasemdir
Það eru engar athugasemdir. Gerðu fyrstu athugasemdina