
Forsetahjónin, Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir, í opinberri heimsókn í Austur-Skaftafellssýslu í júlí árið 1958. Með þeim í för er m.a. Haraldur Kröyer, forsetaritari. Flugvélin TF-ISH, Douglas Dakota. Svipmyndir af Suðurlandi úr flugvélinni. 'A Höfn í Hornafirði taka Jón Kjartansson, sýslumaður Skaftfellinga, og Vilborg Stefánsdóttir, sýslumannsfrú á móti forsetahjónunum. Fyrir framan Kaupfélag Austur-Skaftfellinga safnast fólk saman og kór syngur.
Ferðast um Almannaskarð að Stafafelli í Lóni. Bjarnarneskirkja. Ásgeir Ásgeirsson gengur fremstur í flokki og við hlið hans er séra Rögnvaldur Finnbogason, sóknarprestur og séra Sváfnir Sveinbjarnarson, prófastur. Næst koma sýslumannshjónin Jón Kjartansson og Vilborg Stefánsdóttir ásamt fleirum.
Í Öræfum leika sér krakkar. Hofskirkja, torfkirkja. Ásgeir og Dóra við kirkjuna ásamt Sigurði Arasyni, Sigurður Björnssyni frá Kvískerjum og Páli Þorsteinssyni, þingmanni Austur-Skaftfellinga.
Við stofnun lýðveldis á Íslandi var Vigfús Sigurgeirsson gerður að sérstökum ljósmyndara hins nýja forsetaembættis. Þeirri skyldu gengdi hann í forsetatíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar og skrásetti marga merkilega viðburði og ferðalög þeirra bæði á ljós- og kvikmyndum.
Athugasemdir
Það eru engar athugasemdir. Gerðu fyrstu athugasemdina